Kirkjusandur A lóð
Niðurstaða hönnunarsamkeppni um tillögur að breyttu deiliskipulagi.
Deiliskipulagið á Kirkjusandsreit var endurskoðað í heild á árunum 2014-2016. Nýtt deiliskipulag fyrir reitinn, ásamt greinargerð, var samþykkt í borgarráði þann 28. apríl 2016 og tók gildi með birtingu í B-deild stjórnartíðinda þann 28. júní 2016. Nýtt deiliskipulag gerði ráð fyrir blandaðri byggð íbúðarhúsnæðis og atvinnustarfsemi á reitnum. Einnig gerði það ráð fyrir að gamla frystihúsið á Kirkjusandi 2, sem breytt hafði verið í skrifstofuhúsnæði, myndi standa áfram. Í lok árs 2015, þegar nýja deiliskipulagið var í auglýsingarferli, fundust rakaskemmdir í skrifstofuhúsnæðinu, sem voru rannsakaðar ítarlega í byrjun árs 2016. Niðurstaða þeirra rannsókna varð til þess að skrifstofuhúsið var rýmt í nokkrum áföngum til byrjun árs 2017.
Frekari rannsóknir á skrifstofuhúsinu við Kirkjusand 2 leiddu í ljós að húsið er það illa farið af rakaskemmdum að rífa þarf skrifstofuhúsið, sem kallar á heildarendurskoðun á þessari lóð. Útfærsla lóðar A í deiliskipulaginu frá 2016 tók mið af skrifstofuhúsinu og heimilaði viðbyggingar. Þessi lóð stingur í stúf við aðrar lóðir í nýju skipulagi, þar sem skrifstofuhúsið er mun innar á lóðinni en byggingar aðliggjandi lóða og stendur lægra í landi en aðliggjandi götur og lóðir.
Eftir miklar viðræður við Reykjavíkurborg um bæði ástands hússins og aðstæður í tengslum við nýtt hverfi sem er að rísa suður af reitnum var unnin mikil vinna með borginni að forsögn og markmiðum að mögulega breyttu deiliskipulagi á reit A við Kirkjusand. Í Grunninn var mikilvægt að fylgja sömu skilmálum og er á nærliggjandi lóðum og eins að samræma sem best framtíðarbreytingar á skipulagi að aðliggjandi reitum við Hallgerðargötu.
Að þeirri vinnu lokinni var ráðist í þessa samkeppni til að endurskoða deiliskipulag lóðar A, Kirkjusands 2, í heildarsamhengi gildandi deiliskipulags í ljósi þess að gamla frystihúsið verði rifið.
Markmið
Tilhögun samkeppninnar
Samkeppnin var lokuð framkvæmdakeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Verkkaupi er fjárfestingasjóðurinn Langbrók sem er lóðarhafi á Kirkjusandi 2. Forsögn samkeppninnar var unnin í samstarfi við skipulagssvið Reykjavíkurborgar.
Þáttakendur
Verkkaupi bauð eftirtöldum arkitektastofum þátttöku í lokaðri framkvæmdakeppni:
Gláma Kím
Kurt og Pí
Studio Arnhildur Pálmadóttir
THG arkitektar
Tillögur
Öllum tillögum þátttakenda var skilað með rafrænum hætti í gegnum wetransfer.com til trúnaðarmanns fyrir kl. 16:00 þann 16. júní 2020. Tillögum var skilað undir nafnleynd ásamt nafnamiða, sem var í vörslu trúnaðarmanns þar til niðurstaða dómnefndar lá fyrir. Tillögur voru afhentar sem pdf. skrá, viðmiðunarstærð A3, lárétt, hámarksfjöldi tillöguarka 6 stk. Gerð var krafa um yfirlitsmynd í mælikvarða 1:2000, afstöðumynd og sneiðingar í mælikvarða 1:500 ásamt greinargerð, húsa- og magnskráyfirliti bygginga. Þrívíddarmyndir og aðrar skýringarmyndir voru að vali höfunda.
Dómnefnd og dómstörf
Tilnefndir af fjárfestingarsjóðnum Langbrók:
Jónas Þór Jónasson sjóðsstjóri og formaður dómnefndar
Kristján Eggertsson arkitekt FAÍ.
Tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands:
Sigríður Magnúsdóttir, arkitekt FAÍ.
Ritari dómnefndar var Bjargey Björgvinsdóttir,
verkfræðingur og arkitekt FAÍ.
Trúnaðarmaður samkeppninnar var Helga Guðjónsdóttir, skrifstofustjóri Arkitektafélags Íslands.
Niðurstaða dómnefndar
Allir fjórir aðilarnir sem boðin var þátttaka í þessari samkeppni skiluðu inn fullgildum tillögum sem teknar voru til dóms. Dómnefnd mat tillögurnar út frá þeim markmiðum og áherslum sem skilgreindar voru í forsögn og listaðar eru upp hér að framan.
Veitt verða verðlaun og þóknanir að heildarfjárhæð kr. 8.000.000,-. Verðlaun fyrir vinningstillöguna eru kr. 1.000.000,-. Öllum fjórum aðilunum sem tóku þátt í þessari framkvæmdakeppni verða greiddar 1,75 m.kr. Framangreindar fjárhæðir eru án vsk.
Tillögurnar sem bárust í keppnina voru allar vel unnar og endurspegla ólíka nálgun, áherslur og útfærslur. Dómnefnd var einróma í afstöðu sinni til tillagnanna. Ein tillaga var valin til verðlauna og mælir dómnefnd með því að vinningstillagan verði unnin áfram sem nýtt deiliskipulag fyrir
Kirkjusand 2, lóð A á Kirkjusandsreit.
Vinningstillaga sem hlýtur kr. 1.000.000,-
Tillaga 75866
Tillaga 75866
Skipulag lóðar er rökrétt og í góðu samhengi við aðrar lóðir á Kirkjusandsreit. Uppbygging lóðarinnar er yfirveguð og afslöppuð. Byggingar hafa gott andrými þrátt fyrir þéttleika reitsins, mynda áhugaverð borgarrými og styðja vel við götumynd Hallgerðargötu.
Samspil bygginga og borgarrýma er sannfærandi og gefur fyrirheit um vönduð almenningsrými sem styðja við lifandi mannlíf á svæðinu. Gönguleiðir eru fjölbreyttar, bjóða upp á ólíkar upplifanir og skapa góð tengsl við nærumhverfið. Göngugata liggur í beinu framhaldi af þeirri sem þverar hverfið sunnan lóðar og endar á sannfærandi hátt við borgartorg sem markar um leið tengipunkt áfram í átt að eldra hverfinu til austurs. Mótun torgsins og tengingar fela í sér góð fyrirheit um að þar muni skapast aðstæður fyrir blómlegt mannlíf og þjónusturekstur.
Fimm byggingar eru á lóðinni, hver með sitt einkenni og hlutverk. Þessi aðgreining bygginga og skýrt afmarkað hlutverk kemur mjög vel til móts við kröfur samkeppninnar um hagkvæmni og sveigjanleika í uppbyggingu. Nýtingarhlutfall er samkvæmt forsögn.
Hugmyndir um endurbyggingu, staðsetningu og nýtt hlutverk gamla frystihússins eru vel ígrundaðar. Það er endurbyggt sem íbúðarhús og ber hið endurbyggða hús sterk einkenni gamla frystihússins hvort sem er í mælikvarða, samsetningu eða efniskennd. Byggingarmassar tillögunnar bjóða almennt upp á vel skipulagðar og bjartar íbúðir af mismunandi stærðum og gerðum og stórt hlutfall þeirra er með úthliðar til fleiri átta. Skilvirkt innra skipulag, einföld form og endurtekningar einstakra byggingarhluta og íbúða leiða til hagkvæmni og vísa um leið til sterkra einkenna þeirra iðnaðarbygginga sem áður stóðu á lóðinni. Stór hluti íbúða og atvinnuhúsnæðis nýtur útsýni til sjávar, sem er vel.
Tillagan leysir mjög vel á einfaldan en spennandi hátt öll markmið samkeppninnar og felur í sér fyrirheit um góðan arkitektúr og borgarskipulag.
Sigurvegari - Tillaga 75866, KURTOGPI
KURTOGPI
Ásmundur Hrafn Sturluson Arkitekt FAÍ
Steinþór Kári Kárason Arkitekt EPFL-FAÍ
Samstarfsfólk:
Garðar Snæbjörnsson Arkitekt FAÍ
Jóhanna Hoeg Sigurðardóttir Arkitekt FAÍ
Aðrar tillögur
Tillaga 15320, Gláma•Kím
GLÁMA•KÍM
Jóhannes Þórðarson
Samstarf
Kristinn E. Hrafnsson
myndlistarmaður
Tillaga 20164, THG arkitektar
THG arkitektar og Landslag
THG arkitektar:
Sigrún G. Halldórsdóttir
Sólveig Ragna Guðmundsdóttir
Helga Hallgrímsdóttir
Freyr Frostason
Ragnar Auðunn Birgisson
Halldór Guðmundsson
Landslag:
Svava Þorleifsdóttir
Þráinn Þráinn Hauksson
Tillaga 96518, Studio Arnhildur Pálmadóttir
Studio Arnhildur Pálmadóttir
Arnhildur Pálmadóttir
Samstarf
Hanna Verkfræðistofa
Hrund Einarsdóttir
Um Langbrók
Þróunarsjóðurinn Langbrók er sjóður í stýringu hjá Íslandssjóðum. Sjóðurinn er fagfjárfestasjóður og starfar skv. IV. kafla laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Þegar ljóst var að skrifstofuhúsið við Kirkjusand 2 var ónýtt sökum myglu blasti við mikið eignatjón og eins að staðsetning núverandi byggingar var einkar óhagstæð í landslaginu í samanburði við nýtt hverfi við Hallgerðargötu og alla frekari uppbyggingu á reitnum.
Var sjóðurinn stofnaður til að fara í nauðsynlega vinnu til þess að skoða endurheimtur í tjónið sem orðið var og vinna nauðsynlega skipulags og hönnunarvinnu í samstarfi við Reykjavíkurborg til að skoða kosti í stöðunni. Hönnunarsamkeppnin er fyrsta stigið í bæði endurheimtum á tjóni og nauðsynlegri daglegri starfsemi svo það megi verða.
Vefvinnsla og hönnun: ONNO ehf.