Um Tillögu 75866

Skipulag lóðar er rökrétt og í góðu samhengi við aðrar lóðir á Kirkjusandsreit. Uppbygging lóðarinnar er yfirveguð og afslöppuð. Byggingar hafa gott andrými þrátt fyrir þéttleika reitsins, mynda áhugaverð borgarrými og styðja vel við götumynd Hallgerðargötu.

Samspil bygginga og borgarrýma er sannfærandi og gefur fyrirheit um vönduð almenningsrými sem styðja við lifandi mannlíf á svæðinu. Gönguleiðir eru fjölbreyttar, bjóða upp á ólíkar upplifanir og skapa góð tengsl við nærumhverfið. Göngugata liggur í beinu framhaldi af þeirri sem þverar hverfið sunnan lóðar og endar á sannfærandi hátt við borgartorg sem markar um leið tengipunkt áfram í átt að eldra hverfinu til austurs. Mótun torgsins og tengingar fela í sér góð fyrirheit um að þar muni skapast aðstæður fyrir blómlegt mannlíf og þjónusturekstur.

Fimm byggingar eru á lóðinni, hver með sitt einkenni og hlutverk. Þessi aðgreining bygginga og skýrt afmarkað hlutverk kemur mjög vel til móts við kröfur samkeppninnar um hagkvæmni og sveigjanleika í uppbyggingu. Nýtingarhlutfall er samkvæmt forsögn.

Hugmyndir um endurbyggingu, staðsetningu og nýtt hlutverk gamla frystihússins eru vel ígrundaðar. Það er endurbyggt sem íbúðarhús og ber hið endurbyggða hús sterk einkenni gamla frystihússins hvort sem er í mælikvarða, samsetningu eða efniskennd. Byggingarmassar tillögunnar bjóða almennt upp á vel skipulagðar og bjartar íbúðir af mismunandi stærðum og gerðum og stórt hlutfall þeirra er með úthliðar til fleiri átta. Skilvirkt innra skipulag, einföld form og endurtekningar einstakra byggingarhluta og íbúða leiða til hagkvæmni og vísa um leið til sterkra einkenna þeirra iðnaðarbygginga sem áður stóðu á lóðinni. Stór hluti íbúða og atvinnuhúsnæðis nýtur útsýni til sjávar, sem er vel.

Tillagan leysir mjög vel á einfaldan en spennandi hátt öll markmið samkeppninnar og felur í sér fyrirheit um góðan arkitektúr og borgarskipulag.

Höfundur tillögu 75866

KURTOGPI
Ásmundur Hrafn Sturluson Arkitekt FAÍ
Steinþór Kári Kárason Arkitekt EPFL-FAÍ

Samstarfsfólk:
Garðar Snæbjörnsson Arkitekt FAÍ
Jóhanna Hoeg Sigurðardóttir Arkitekt FAÍ